Fréttir

Ragga vill vera formaður áfram

Ragnheiður Thorsteinsson formaður Stango

„Ég býð mig fram til áframhaldandi setu sem formaður Stangaveiðifélags Reykjavíkur á aðalfundi félagsins sem verður haldinn 27. febrúar,“ segir Ragnheiður Thorsteinsson, formaður Stangveiðifelags Reykjavíkur og bættir við; „Fyrir tveimur árum tók ég við formennskunni í okkar góða félagi, en hafði áður setið í stjórninni um árabil. Ég er staðráðinn í að vinna áfram af einurð og metnaði fyrir félagsmenn og í leiðinni veiðisamfélagið allt. Ég óska eftir þínum stuðningi. Rekstur SVFR gengur vel, ábyrgð og festa hefur einkennt rekstur félagsins undanfarin ár. Afkoman hefur verið góð og eiginfjárstaðan styrkst frá ári til árs, eftir mögur ár í kjölfar samfélagshremminga. Reksturinn er í góðu jafnvægi en áfram þarf að halda vel utan um hann til að tryggja öflugt félag til framtíðar.

Nútímavæðing og innri uppbygging
Félagsstarfið hefur gengið vel og almenn ánægja ríkir meðal félagsmanna. Ég vil byggja á þeim trausta grunni og á næstu mánuðum styrkja innri kerfi félagsins. T.d. er tímabært að bæta heimasíðu félagsins, gera „mínar síður“ notendavænni fyrir félagsmenn og auka sjálfvirkni í þjónustunni – t.d. með nýtingu spjallmenna og annarra nútímalegra lausna.

Elliðaárnar í forgangi
Það er fáheyrt að glæsileg og heilbrigð laxveiðiá renni gegnum höfuðborg, eins og raunin er í Reykjavík. Það er hins vegar staðreynd að hætta steðjar að Elliðaánum, bæði vegna framkvæmda og aukinnar umferðar í dalnum. Upphaflegt erindi SVFR frá árinu 1939 – að standa vörð um Elliðaárnar – er því jafn brýnt og áður. Raunar er ekkert verkefni SVFR mikillvægara en áframhaldandi varðstaða um þá einstöku náttúruperlu sem þær eru, svo fiskistofnar árinnar styrkist áfram og veiðimenn komandi kynslóða geti notið hennar. Þar mun ég sannarlega leggjast á árarnar. Það er einlæg von mín að félagsmenn SVFR sýni mér áfram traust og veitið mér tækifæri til að halda áfram því góða starfi sem unnið hefur verið.