FréttirSportveiðiblaðið

Sportveiðiblaðið í 40 ár – um 12000 blaðsíður skrifaðar um laxveiði og um 6000 myndir birtar

1. tbl 2022

Í ár eru liðin 40 ára síðan Sportveiðiblaðið hóf göngu sína! „Þetta tölublað er hlaðið greinum og viðtölum í tilefni tímamótanna og viljum við þakka lesendum fyrir að hafa stutt við okkur í öll þessi ár og gert útgáfuna mögulega,“ útskýrði Gunnar Bender, ritstjóri Sportveiðiblaðsins þegar við leituðum frétta. Það voru þeir vinirnir Gunnar Bender og Þröstur Emilsson, eigandi veiðiþjónustunnar Strengir.is, sem hófu þetta útgáfuævintýri fyrir fjórum áratugum, þá kornungir menn og óhætt að segja að margt hafi drifið á daga laxveiðimanna síðan blaðið kom fyrst út. Á hverju ári hafa birst 3 – 4 tölublöð og því orðin yfir 150 tölublöð sem komið hafa út á þessum tíma, sneisafull af skrifuðu efni, viðtölum og greinum á nálægt 12000 blaðsíðum og meira en 6000 ljósmyndum um laxveiðar í helstu veiðiám landsins „og við erum rétt að byrja,“ bætti Gunnar við.

„Í þessu tölublaði tökum við viðtal við goðsögnina Pétur Steingrímsson í Nesi, stórleikarann Sigga Sigurjóns, Einar Pál eða Palla í Veiðihúsinu, eins og hann er gjarnan kallaður og við stórveiðikonuna Helgu Gísladóttir, sem kann best við sig í vöðlum meiri part sumars og við erum svo með ótal greinar og viðtöl við veiðimenn og annað samferðarfólk í blaðinu,“ sagði Gunnar. Í dag standa þeir Gunnar Bender og Ingimundur Bergsson að útgáfu Sportveiðiblaðsins en þeir hvetja lesendur blaðsins að senda þeim efni áfram, sögur og myndir til birtingar í komandi blöðum en bjóða fólki einnig að gerast áskrifendur að Sportveiðiblaðinu með því að skrá sig af heimasíðu þeirra, www.sportveidibladid.is.

Nýtt veiðitímabil er hafið og þegar þetta er skrifað er sá silfraði þegar farinn að nálgast strendur landsins. Þá mætir ótrúlega stór hópur fólks á öllum aldri, veiðimenn og veiðikonur á bakkana og aldrei að vita nema veiðisaga úr einni ferðinni rati á síður Sportveiðiblaðsins.