Fréttir

Óvenjulegur fengur úr Baugstaðaósi

Minkagildran úr Baugstaðaósi
Þessi sjóbirtingur kom á land skömmu eftir löndun gildrunnar

Veiðimenn fá ýmislegt á öngulinn og þá aðallega fiska, þó alls ekki allir. Rusl og drasl má finna í mörgum ám og vötnum og það veiddist óvenjulegur hlutur í Baugastaðaósnum í gær,  en áin hefur reyndar verið að gefa fína fiska í sumar, mjög góða veiði og vænir fiskar veiðst í ósnum.

„Já ég fékk þetta á stöngina í gær og vissi ekki alveg hvað var á önglinum, þegar kom síðan í ljós að var eitt stykki minkagildra og tók smá tíma að landa gripnum,“ sagði Einar Margeir við Baugstaðaósinn í gær, en hann var ennþá að veiða í ausandi rigningunni.

„Nokkru seinna fékk ég fisk, sæmilegan sjóbirting, eftir að gildran var komin á þurrt og síðar veiddi ég nokkra í kringum pundið. Það var grenjandi rigning já,“ sagði Einar Margeir eftir að hafa landaði þessum óvenjulega feng.