Sá litli stóð sig vel
„Við feðgar fórum í bæjarlækinn laugardaginn fyrir skömmu, Þjórsá í Gnúpverjahrepp og var leikplanið að Kristófer Logi Marvinsson, fimm ára, myndi veiða maríulaxinn sinn,“ segir faðir hans Marvin Valdimarsson og bætti við; „hann var með maðk og sökku á barnastönginni sinni en gekk erfiðlega að fá hann til að taka. Við sáum fiska stökkva og okkur grunaði að þeir væru ekki langt frá landi. En ekkert gekk.“
Marvin heldur áfram; „Lögðum við því höfuðið í bleyti og var planið því næst uppfært í það að hann myndi fá hjálp frá pabba sínum og prófa flugustöngina hjá gamla. Sú veiðiaðferð er auðvitað örlítið meira krefjandi og sérstaklega fyrir lítinn snáða sem ekki hefur neina reynslu á fluguveiði. Sett var undir lítil „Von“ þríkrækja frá Haugnum, fluga sem hefur reynst mér afar vel og ég treysti mikið á og aðstoðaði ég drenginn við að koma línunni út í strauminn. Við þurftum ekki nema örfá stutt köst þar til það var bitið á agnið og upphófst þá mikill æsingur og læti því fiskurinn var í ágætis stærð og straujaði niður ána. Kristófer Logi reyndi hvað hann gat til að draga inn línuna á hjólinu en krafturinn var það mikill í fiskinum að hann missti stöngina fram fyrir sig svo hún lá í 90 gráðum á vatnsfletinum. Ég hljóp þá til og tók í stöngina með drengnum, reysti við, setti örlitla bremsu á og við feðgar náðum áttum aftur.“
Nú æsast leikar; „Sá litli var einbeittur og notaði allann sinn kraft til að draga inn línuna en nú færðist fjör í leikinn því fiskurinn stökk og var með læti og fór upp og niður ána til skiptis. Krafturinn í fisknum var ansi mikill fyrir barn sem er á leikskólaaldri en drengurinn var hugrakkur og ætlaði sér ekki að gefast upp.
Eftir svona 5-10 mínútur af baráttu fór að draga af fiskinum og sá litli með „örlítilli“ hjálp frá föður sínum tókst að landa 68 cm hæng – sínum fyrsta laxi.
Kristófer Logi hefur þrátt fyrir ungan aldur veitt bleikju, staðbundinn urriða, sjóbirting og nú var hringnum lokað með því að veiða krúnudjásnið, Atlantshafslax. Glaðir feðgar fóru sáttir frá bæjarlæknum og með minningu sem aldrei gleymist,“ sagði Marvin að lokum.