Skítakuldi og svartamyrkur
Veiðisumarið er á enda þessa dagana þótt margir endi það í sjóbirtingi. En veiðin á þeim slóðum hefur verið góð og það eru ennþá margir dagar eftir. En sumir eru í sinum síðasta veiðitúr á þessu sumri.
„Við feðgarnir lokuðum veiðisumrinu í skítakulda og svartamyrkri,“ sagði Gunnar Freyr Jónsson og bætti við; „við erum afar sáttir með allar gæðastundirnar við vötnin í sumar og hlökkum til vorsins. Kolbeinn Flóki er með ólíkindum duglegur veiðimaður, missir aldrei einbeitingu, stendur í öllum veðrum, les vatn og vinda. Hann er jákvæðari en góðu hófi gegnir og fiskar á land eru bara bónus á annars skemmtilega ferð. Þegar ég spyr yngri systur hans hvernig við getum eytt saman svona dögum eins og við feðgarnir gerum í veiði, þá segir hún að við getum farið á kaffihús og að versla í H&M 😋 Hún er engu síður duglegri á því sviði en hann á bakkanum,“ sagði Gunnar Freyr að lokum.