„Frábær dagur í fyrradag. Við hjónin Guðrún Una Jónsdóttir byrjuðum daginn á því að bruna inn í botn Eyjafjarðar til að veiða,“ sagði Árni Jóhannesson og bætti við; „við vorum hæfilega bjartsýn á veiði en þokan og norðan, brælan, hjálpuðu sjálfsagt til þannig að við náðum 4 ágætum bleikjum fyrir hádegi. Eins og svo oft slapp sá stóri en Guðrún missti stóran fisk rétt fyrir hádegið. Fiskinn sáum við aldrei en hann lagðist nokkrum sinnum fyrir í hylnum þannig að ekki var hægt að hagga honum fyrr en hann valdi sjálfur að fara af stað aftur.
Í hádeginu brunuðum við svo heim aftur til að ná fótboltaleik með 3. flokki Þór/KA. Heit sturta var nauðsynleg milli atriða til að ná úr sér hrollinum fyrir leikinn, enda ekki margar gráður á mælinum inn í firði.
Klukkan 15 byrjaði undanúrslitaleikur í bikarkeppni KSÍ við FH. Þar stóðu stelpurnar okkar sig frábærlega og unnu 2-1 sigur í miklum baráttuleik. Amalía Árnadóttir stóð sig eins og hetja á miðjunni, lagði upp fyrra markið og skoraði svo sigurmarkið 10 mínútum fyrir leikslok!
Vitandi af þessum stóra var svo ekki annað hægt en að keyra aftur inn í botn Eyjafjarðar eftir stutt fagn. Í síðasta kasti dagsins (allt eðlilegt fólk hefði verið hætt að veiða og farið heim, nema kannski Sævar frændi, Sævar Örn Hafsteinsson) tók svo loksins þessi fína 61 sm bleikja sem endaði í háfnum eftir skemmtilega baráttu.
Það verður að nefna að fiskarnir fengustk allir á leynivopn sem Biggi frændi, Hörður Birgir Hafsteinsson hnýtir og ég fékk frá honum fyrr í sumar,” sagði Árni ennfremur.