Brandönd er stór og skrautleg önd sem minnir talsvert á gæs. Í fjarska virðist brandönd vera hvít með dökkt höfuð. Hún er með svart höfuð og háls með grænni slikju, brúnt belti sem nær upp á bakið. Dökk rák nær frá bringu eftir endilöngum kviði aftur á undirgump. Undirgumpur er gulur og stélið dökkt í endann. Axlafjaðrir eru svartar og hand-og armflugfjaðrir svartleitar með grænum spegli. Að öðru leyti er vængurinn hvítur. Fullorðnir fuglar í felubúningi eru ljósari og litdaufari og minna á ungfugla. Ungfuglar eru mógráir að ofan, hvítleitir á vöngum og framhálsi og án brúna bringubeltisins. Kynin eru mjög lík en karlfuglinn er þó litsterkari, auk þess að vera með dökkrauðan hnúð við goggrót.
Brandendur eru léttar á sundi, léttar til gangs og hefja sig snöggt til flugs. Minna mjög á gæsir, auk þess sem kynin sjá saman um uppeldi unga eins og hjá þeim. Liturinn greinir þær þó alltaf frá gæsum.
Fæða og fæðuhættir:
Leitar ætis á yfirborði leira, hreyfir hausinn til hliðanna og síar með goggnum úr leðjunni þörunga, snigla, smáskeljar, skordýr og orma. Hálfkafar einnig á grunnu vatni.
Fræðiheiti: Tadorna tadorna Fuglavefurinn