Mynd tekin við Mývatn
Hávella er einn af einkennisfuglum hálendisvatna og tjarna. Fremur lítil kafönd, eina öndin sem hefur ljósan búk á veturna og aldökka vængi. Skiptir oftar um fjaðurham en aðrar endur. Steggur er með áberandi langar miðfjaðrir stéls, nema í felli síðsumars. Á sumrin er hann dökkbrúnn um höfuð, háls, bringu og bak, með hvíta bletti á höfuðhliðum og hvítur á síðum. Hann er mun ljósari á veturna, er þá ljós um höfuð, bak og ofanverða bringu með dökka vangabletti. Kolla er á veturna með dökkt og ljóst höfuðmynstur, breiðan dökkan hálshring en annars grábrún að ofan og hvít að neðan. Á sumrin er hún dekkri á höfði og bringu og dökkbrún að ofan. Bæði kyn eru með aldökka vængi án spegla.
Hávella er hraðfleyg og vængjatökin sérkennileg, hún flýgur lágt í óreglulegum hópum, vaggandi til hliðanna, og sýnir til skiptis dökkan og ljósan lit. Hún er afar fimur sundfugl og kafari og lætur brimrót ekki hindra sig. Á pörunartímanum lyftir karlfuglinn löngu stélfjöðrunum upp úr vatninu og syndir gólandi í hringi kringum kvenfuglinn. Félagslynd og fremur spök en óróleg og sífellt að fljúga upp eða kafa.
Texti: Fuglavefurinn
Myndin tekin við Mývatn