Elvar Friðriksson:
Í gær birtust fréttir af því að HSÍ væri komið með nýjan bakhjarl. Þar er um að ræða Arnarlax, stærsta sjókvíaeldisfyrirtæki landsins.
Það er auðvitað dæmigert að óvinsælt fyrirtæki í rekstri sem 70% þjóðarinnar eru mótfallin samkvæmt nýrri könnun sækist eftir að baða sig í ljósi vinsælda þjóðaríþróttarinnar. Þetta er ekki beint grænþvottur, ekki beint hvítþvottur, kannski íþróttaþvottur? Eins og alþjóð veit stafa óvinsældirnar af ítrekuðum og alvarlegum umhverfisspjöllum í sjókvíaeldi undanfarna mánuði og ár. Sjókvíaeldisiðnaðurinn hefur náð á skömmum tíma þeim merka árangri að láta milljónir eldislaxa drepast í kvíum sínum, leyfa hundruðum þúsunda eldislaxa að sleppa út í náttúruna, dreifa frjóum norskum eldislaxi í íslenskar ár og nú nýlega að valda versta lúsafaraldri sem sést hefur í þessum bransa. Arnarlax fékk einnig nýverið 120 milljóna sekt á sig vegna vítaverðs aðgæsluleysis þegar meira en 80.000 eldislaxar sluppu úr kvíum þeirra.
Þetta er ekki gott fyrir ímyndina….hvað gerir maður þá? Nú auvitað að kaupa sig inn í sameiningartákn þjóðarinnar, íslenska landsliðið. Sennilega er þetta fyrsti bakhjarl íslenska landsliðsins sem er af norskum uppruna.
Hins vegar hef ég meiri áhyggjur af árangri íslenska landsliðsins á komandi handboltamótum. Ef vörnin hjá þeim verður jafn lek og netin hjá Arnarlaxi, veit það ekki á gott. Hins vegar er vonarglæta fyrir sóknina, þar sem að nýi bakhjarlinn hefur mikla reynslu af því að komast framhjá öllum vörnum og troða sér áfram þvert á vilja fólks.
Ímynd Íslands
Eins og kom fram hér fyrir ofan er yfirgnæfandi meirihluti þjóðarinnar andvígur sjókvíaeldi. Þeir hörmungaratburðir sem hafa einkennt iðnaðinn undanfarið hafa ekki aðeins fengið athygli hér á landi, heldur út um allan heim. Stórir erlendir miðlar fjalla um sleppingar, erfðablöndun og lúsafaraldra og allt hefur þetta áhrif á þá hreinu ímynd sem Ísland treystir á. Nýlega birti Vísir grein með fyrirsögninni „Ísland á kortið sem dýraníðingar og umhverfissóðar“. Heimurinn er orðinn meðvitaður um það að ekki er allt með felldu í þessum iðnaði þar sem orðið „sjálfbærni“ er notað óspart án nokkurrar innistæðu. Vill HSÍ virkilega vera með merki þessa iðnaðar á baki sínu og þannig kynna land og þjóð?
Fólkið vill breytingar
Það er alveg ljóst að Íslendingar vilja ekki þennan iðnað. Allt það sem náttúruverndarsamtök spáðu fyrir um hefur raungerst á aðeins nokkrum árum. Ísland vill ekki verða þekkt fyrir að vera dýraníðingar og umhverfissóðar og nú nýlega mættu 3.000 manns á Austurvöll og kröfðust þess að iðnaðurinn yrði bannaður. Sjókvíeldi ógnar villtum laxi, íslenskri náttúru og lífsviðurværi allra þeirra fjölskyldna sem treysta á veiðihlunnindi í laxveiðiám. Hvort vill HSÍ vera fulltrúi íslensku þjóðarinnar eða norskrar mengandi stóriðju?
Höfundur er framkvæmdastjóri Verndarsjóðs Villtra Laxastofna (NASF á Íslandi)