Kleifarvatn í Krísuvík

Kleifarvatn – um 10 km2 að flatarmáli og 97 m djúpt – fyllir sigdal lokaðan í báða enda við austurjaðar Krýsuvíkur-sprungukerfisins. Í lögun líkist vatnsstæðið óreglulegu baðkari með brattar hliðar allt í kring niður á 50–60 m dýpi (1. mynd). Yfirborð vatnsins er um 140 m.y.s. en hækkar eða lækkar eftir veðurfari með jarðvatnsborði umhverfisins – fyrir jarðskjálftana árið 2000 rann lækur úr vatninu norður í Lambhagatjörn og þaðan neðanjarðar til sjávar í Straumsvík.[1] Í jarðskjálftunum opnuðust eða víkkuðu sprungur í og við norðurenda vatnsins sem talið er að hafi valdið 4ra metra lækkun yfirborðs á næstu tveimur árum. Við nýlegar dýptarmælingar og gerð dýptarkorts af Kleifarvatni fundust merki um eldvirkni (bólstrabergshryggir), sex jarðhitasvæði og nokkrar jarðskjálftasprungur, sem flest hefur stefnu svipaða og sprungur og hryggir í nágrenninu.

Vísindavefurinn
Mynd / María Gunnarsdóttir