Toppönd er algengasta fiskiöndin hér, grannvaxin, hálslöng og rennileg, vaxtarlagið minnir á skarfa og brúsa. Hún er með langan, mjóan gogg og áberandi, stríðan topp í hnakka. Steggurinn er með grængljáandi höfuð, grár á búkinn, hvítur á hálsi og brúndröfnóttur á bringu. Hann hefur svart belti með hvítum doppum á bringuhliðum. Í felubúningi er steggur líkur kollu, en dekkri að ofan, hann byrjar oft að skipta um búning þegar í maí. Kollan er að mestu grábrún, höfuðið ljósrauðbrúnt. Bæði kyn eru með gráan yfirvæng með hvítum speglum. 

Flýgur venjulega lágt og hratt með sterklegum vængjatökum. Toppöndin er félagslynd og er oft í litlum hópum. Tilhugalífið er oft afar fjörlegt og mikil læti í karlfuglinum á útmánuðum og vorin. Afbragðs kafari og góð til gangs og sést stundum veiða í hópum og hrekja bráðina á undan sér inn á grynningar.

Fæða og fæðuhættir: 
Fiskiæta, aðalfæðan á ferskvatni er hornsíli, veiðir einnig seiði laxfiska. Á sjó m.a. smáufsi, sprettfiskur og sandsíli. Kafar með dýfu.

Fræðiheiti: Mergus serrator
Texti: Fugavefurinn.is