Fréttir

Engin lognmolla á bökkum Svartár

„Þetta gengur allt í lagi og það eru að veiðast laxar á hverjum degi í Fuss hollinu, bara gaman hérna,“ sagði Páll Halldórsson við Svartá í Húnavatnssýslu þegar við heyrðum í honum á árbakkanum með ungum og hressum veiðimönnum.

Elías Pétur Þórarinsson með lax úr Svartá

„Ég hef aldrei veitt hérna áður og þetta er skemmtileg veiðiá og ég var að landa fiski áðan. Hann tók fluguna Evening Dress og það var í Hólmabreiðu rétt fyrir ofan Áramótin og þetta var tíu mínútu barátta,“ sagði Páll ennfremur.

Og nokkru ofar í Svartá var Elías Pétur Þórarinsson að landa flottum laxi en nokkrir hafa veiðst í hollinu en Fuss er félag ungra veiðimanna um skot- og stangveiði og markmið félagsins er að fræða og vekja vitund ungs fólks á umhverfi veiðanna. 

Svartá hefur gefið 11 laxa það sem af er sumri en Blanda í sama vatnasvæði hefur gefið 140 laxa.

Mynd. Páll Halldórsson  með lax af Hólmabreiðu  í Svartá.