„Við vorum fyrir norðan og fengum nokkrar bleikjur, vorum á sama tíma í fyrra og þá var flott veiði, búinn að heyra þetta hjá mörgum veiðimönnum. Bleikjan er að klikka algjörlega þetta árið,“ sagði veiðimaður sem var í lítilli bleikju og annar tók í sama streng, „vorum fyrir austan og þar var mjög lítið af bleikja. Norðfjarðará var alls ekki að gefa mikið þegar við vorum þar,“ sagði veiðimaðurinn, fékk þó nokkrar en sleppti líka nokkrum, sem betur fer.
Veiðimenn sem við höfum rætt við víða um land segja allir sömu sögu frá Norðurlandi og austur á firði. Miklu minna um bleikju, árnar kaldar og lítil veiði. Sumar árnar hafa verið vatnsmiklar í allt sumar en mjög kaldar eftir miklar rigningar.
„Ég var í Héðinsfirði um daginn og fékk nokkrar, rosalega rólegt,“ sagði einn veiðimaður og þessa sögu segja margir veiðimenn þetta sumarið. Bleikjan er að klikka víða, lítið veiðist af henni í flestum landshlutum.