Fréttir

Andakílsá byrjaði með látum

Guðmundur Þórður Guðmundsson við veiðar í Andakílsá í gær en áin hefur gefið 19 laxa frá opnun /Mynd G.Bender

„Veiðin byrjaði vel hjá okkur í Andakílsá og núna eru komnir nítján laxar á land, á móti níu á sama tíma í fyrra,“ sagði Kristján Guðmundsson þegar við hittum hann við ána í gær og bætti við; „það er mikið vatn í ánni þessa daga en byrjunin lofar góðu með sumarið,“ sagði Kristján enn fremur.

„Þetta er skemmtileg veiðiá og krefjandi í svona miklu vatni,“ sagði Guðmundur Þórður Guðmundsson þjálfari sem er í smá fríi á Íslandi, eftir frábært tímabil í Danmörku hjá Fredericia en þar náði hann ævintýralegum árangri.

„Maður gæti alveg hugsað sér að koma aftur hingað og veiða, flottir flugustaðir,“ sagði Guðmundur og hélt áfram að kasta flugunni.

Veiðin hefur dreifst um ána til að byrja með og áin er vatnsmikil eftir miklar rigningar síðustu daga og vikur. Þegar horft var yfir Grímsá virkaði hún eins og stórfljót eftir úrhellisregn daga og nætur.