Umhverfis- orku- og loftslagsráðherra hefur fallist á tillögu Umhverfisstofnunar að fyrirkomulagi rjúpnaveiða ársins 2023.
Fyrirkomulag veiða
Umhverfisstofnun leggur til að veiðar verði heimilar sem hér segir:
Frá og með 20. október og til og með 21. nóvember frá og með föstudögum til og með þriðjudögum á því tímabili.
Tillögur þessar eru lagðar fram að undangengnu ítarlegu og faglegu samráðsferli við Náttúrufræðistofnun Íslands, Fuglavernd og Skotveiðifélag Íslands og eru fyrsta skrefið í umbyltingu veiðistjórnunarkerfis fyrir rjúpnastofninn og byggja þær á aðferðarfræði nýs stofnlíkans.
Stjórnunar- og verndaráæltun fyrir rjúpu í vinnslu
Síðastliðið ár hefur farið fram vinna við gerð stjórnunar- og verndaráætlun rjúpu og nýtt stofnlíkan (IPM – integrated population model) fyrir rjúpnastofninn. Í lok árs 2022 gerði Umhverfisstofnun tímabundin samning við Dr. Fred Johnson, bandarískan sérfræðing í líkanagerð og veiðistjórnun við háskólann í Árósum og háskólann í Flórída. Fred hefur áratuga reynslu af gerð stjórnunar- og verndaráætlana fyrir fugla- og dýrastofna og er einn af frumkvöðlum í heimi aðlögunarstjórnunar (adaptive management). Hann hefur undanfarna mánuði leitt vinnu við gerð stjórnunar- og verndaráætlunar fyrir rjúpnastofninn og unnið að nýju og endurbættu stofnlíkani sem byggt er á gildum og veiðistjórnunarmarkmiðum vinnuhóps verkefnisins.
Við gerð tillagnanna lagði Umhverfisstofnun til grundvallar niðurstöður úr nýju stofnstærðarlíkani fyrir rjúpnastofninn og mat á æskilegum fjölda veiðidaga. Líkanið byggir á gagnasafni áranna 2005 – 2023 og miðar að því að veiðar ársins muni ekki hafa þau áhrif að stofninn fari undir meðalstofnstærð sömu ára. Niðurstaðan er að rjúpnastofninn í ár þoli 25 veiðidaga.