Komdu að veiða – ný veiðibók
Nú fyrir jólin á veiðifólk von á góðu því að Sigurður Héðinn, eða Siggi Haugur eins og margir þekkja hann, er búinn að skrifa – og mála – nýja veiðibók. Bókin heitir einfaldlega því skemmtilega nafni Komdu að veiða, enda fer Siggi í ferðalag með lesandann um nokkrar af helstu laxveiðiám landsins. Þannig fær lesandinn að kynnast betur helstu veiðistöðum í hverri á, og Siggi segir hvernig er best að veiða hvern hyl. Með vatnslitamyndum af hverjum stað verður upplifun lesandans enn sterkari. Auk þess má segja að vatnslitamyndirnar geri bókina enn fallegri og skemmtilegri aflestrar.
Auk þess birtir hann í bókinni nokkrar nýjar veiðiflugur og veitir líka fjölmörg góð ráð við laxveiðarnar, eins og honum einum er lagið. Um leið og veidar.is mælir hiklaust með því að Komdu að veiða rati í jólapakka laxveiðifólks þökkum við Sigga fyrir að veita leyfi til að birta hér smá kafla úr bókinni:
Kálfhagahylur
Skemmtilegur staður sem getur geymt mikið af fiski og þá sérstaklega á haustin. Yfirleitt geri ég þetta þannig að ég byrja vel fyrir ofan klettinn sem skagar út í ána efst í veiðistaðnum og hef fengið fína veiði þar. Svo er veitt niður fyrir klettinn og er ágætt að geta kastað langt, það er að segja alveg yfir að bakkanum hinum megin eða því sem næst. Hér er gott að fara lengra niður breiðuna því að fiskur getur, og þá meina ég getur, legið alveg niður að broti. Oft geri ég það þannig að áður en ég fer niður efsta stigann skyggni ég breiðuna, ef aðstæður leyfa, til að reyna að átta á mig hversu neðarlega hann getur legið. Hér geta ævintýrin gerst.