„Við Gummi maður minn áttum tvo daga í Straumunum í vikunni og buðum sonardóttur að koma með og kíkja á okkur, því hún hefur áhuga á veiði,“ sagði Gigja Jónatansdóttir þegar við heyrðum í henni um maríulaxinn, sem kom á land.
„Hún kom í gær eftir vinnu og prófaði að kasta bæði einhendu og switsh og hún hefur þetta allt í sér. Hún kom aftur eftir vinnu í dag með kærastanum og gerði sér lítið fyrir og fékk Maríuna sína á flugu-switsh stöng í frekar hvassri norð-austan átt. Þar með var ekki aftur snúið og eru nú 3 ættliðir að veiða saman,“ sagði Gigja enn fremur.
Veiðin gengur víða ágætlega þessa daga, Norðurá er komin með yfir 200 laxa. Árnar eru vatnsmiklar enda rignir eldi og brennisteini á mörgum stöðum. Veiðimenn sem við hittum við Norðurá voru komnir með 8 laxa á stöngina, sem er dágott.