Fréttir

Frítt að veiða í Hlíðarvatni í Selvogi á morgun

Halldór Páll Kjartansson með flotta veiði úr Hlíðarvatni fyrir skömmu

Stangaveiðifélögin, sem eru með aðstöðu við Hlíðarvatn í Selvogi, bjóða gestum að koma og veiða án endurgjalds í vatninu næstkomandi sunnudag hinn 9. júní. Þetta eru Stangaveiðifélagið Árblik, Ármenn, Stangaveiðifélag Hafnarfjarðar, Stangaveiðifélag Selfoss og Stangveiðifélagið Stakkavík.

Veðurspáin fyrir Selvoginn á sunnudaginn lofar góðu. Spáð er sól og þurru veðri, 10 stiga hita og rólegum vindi, 4 m/sek. Það er kærkomin tilbreyting frá veðrinu undanfarið.

Fulltrúar frá félögunum verða á staðnum og munu leiðbeina gestum um agn, veiðistaði og aðferðir. Einnig verður að fá á staðnum ýmsar upplýsingar um vatnið og veiðina í því.

Gestum er frjálst að koma árla morguns á sunnudeginum og veiða til kl. 17:00 um kvöldið. Leyfilegt agn er fluga og spónn. Einungis er veitt frá landi. Gestir eru vinsamlegast beðnir að skrá aflann hjá einhverju félaganna. Skrá þarf veiðistað, tegund, lengd og agn. Gestum er bent á að lausaganga hunda við vatnið er óheimil vegna hættu fyrir sauðfé.

Það er um að gera og mæta og renna fyrir fisk, veiðin hefur verið góð það sem af er sumri og flottir fiskar. Þetta gæti orðið veisla fyrir veiðimenn.