Helsinginn er önnur tveggja ,,svartra“ gæsa sem fara um landið, er á stærð við heiðagæs og blesgæs. Hann verður best greindur á áberandi skörpum skilum dökka litarins að ofan og hvíta litarins að neðan, svo og hvítu andliti, kverkum og vanga. Hann hefur svarta augnrák, er svartur á kolli, hnakka, hálsi og bringu, og bak og yfirvængir eru blágrá með hvítjöðruðum svörtum þverrákum. Vængir virðast gráir að ofan á flugi, dökkir að neðanverðu. Fuglinn er ljósgrár að neðan, með hvítar stélþökur og svart stél. Fullorðinn helsingi og ungfugl eru mjög líkir. Kynin eru eins, en gassinn er sjónarmun stærri en gæsin.
Helsingi flýgur sjaldnar í oddaflugi en aðrar gæsir sem hér fara um en er oft í óskipulegum, þéttum hópum eða löngum röðum. Er stærri en margæs og með hægari vængjatök.
Fæða og fæðuhættir:
Grasbítur, sækir talsvert í tún á vorin, en einnig í úthaga og votlendi. Varpfuglar ala unga sína við ár og jökullón. Fæða þeirra er væntanlega kornsúra, starir og sef. Ber eru mikilvæg fæða á haustin ásamt kornsúrurótum og stararfræjum.
Texti: Fuglavefurinn
Fræðiheiti: Branta leucopsisFuglavefurinn
Mynd María Björg Gunnarsdóttir