„Já ég fékk fisk áðan,“ sagði Kiljan Kormákur um leið og hann náði í urriðann, sem hann skömmu áður veiddi við Hreðavatn í Borgarfirði. Töluvert líf var við vatnið og nokkrir að veiða og allir að fá fiska.
Nokkru neðar en Kiljan var, náði veiðimaður með fimm stangir í nokkra fiska og þeir komnir ofan í plastpoka. Aðeins innar í vatninu voru veiðimenn að hætta sem höfðu margar stangir og höfðu tvo poka, fulla af fiski.
Já það var sannarlega líf við vatnið á sunnudeginum, vatnsstaðan er fín þessa dagana og fiskurinn að gefa sig. Veiðimenn á öllum aldri að fá fiska, mest urriða en eina og eina bleikju.