Fleiri net á land í Hvítá og Ölfusá
Verndarsjóður villtra laxastofna, NASF (North Atlantic Salmon Fund), náttúruverndarsamtök sem hafa vernd Norður-Atlantshafslaxins að meginmarkmiði, komust á síðasta ári að samkomulagi við hóp landeiganda á vatnasvæði Hvítár og Ölfusár um að laxanet þeirra verði ekki sett niður í 10 ár, til 2030. Samkomulagið felur í sér að NASF greiðir landeigendum á svæðinu fyrir að veiða ekki lax með netum.
Fleiri landeigendur hafa nú bæst í þennan hóp og eru því fleiri net á leiðinni á þurrt sumarið 2022. Þetta eru gleðifréttir fyrir laxastofna á vatnasvæði Hvítár- og Ölfusár.
Flestar af stærstu netalögnum Ölfusár verða ekki nýttar í sumar eða aðeins nýttar í örfáa daga eins og kom fram í nýlegri fréttatilkynningu um stangveiðar í landi lögbýlisins Selfoss. Út frá þessu má áætla að 70-80% af þeim netum sem laxinn í Ölfusá hefur ratað í verða ekki nýtt í sumar. Í Hvítá eru fleiri lagnir, en aflaminni í flestum tilfellum. NASF vill þakka öllum þeim sem hafa gengið til samninga fyrir þeirra þátt í þessu mikilvæga verndunarstarfi. Einnig vill NASF þakka þeim sem hafa ekki enn samið fyrir góðar viðræður, viðræður sem enn standa yfir. Það er ljóst að samhugur er á svæðinu um nauðsyn þess að vernda viðkvæma laxastofna.
Tilgangur verkefnisins er að vernda villta Atlantshafslaxinn en stofninn hefur átt undir högg að sækja á liðnum árum. Áætlað er að 600-800 laxar komist á hrygningarslóðir sínar með brotthvarfi laxaneta sem iðulega eru sett niður á sumrin. Með samkomulaginu er virtur réttur landeigenda og netabænda á svæðinu, hvort sem litið er til hefða og venju eða til tekjulindar. Aðilar samkomulagsins eru einhuga um mikilvægi þess að vernda laxastofninn og ýta undir frekari vöxt hans til framtíðar.
Bæði landeigendur og leigutakar á svæðinu koma að fjármögnun samkomulagsins í samstarfi við NASF á Íslandi. Þessi ráðstöfun, að semja við netabændur um nýtingu á svæðinu, er í samræmi við stefnu og tilgang NASF, sem mótaður var Orra heitnum Vigfússyni, stofnanda sjóðsins. Orri helgaði líf sitt baráttunni fyrir verndun villta Atlantshafslaxins. Aðferðarfræði hans í umhverfisvernd byggði m.a. á því að kaupa veiðiréttindi, hvort sem er á hafi eða í ám, í sátt við hluteigandi aðila, s.s. sjómenn og landeigendur á Íslandi, í Færeyjum og á Grænlandi. Fyrir það hlaut hann fjölmargar viðurkenningar frá umhverfisverndarsamtökum víða um heim.
Elvar Örn Friðriksson, framkvæmdastjóri NASF:
„Árið 2021 gerðum við samninga við nokkra landeigendur á svæðinu og strax það sumar urðu menn varir við meira af laxi í uppánum sem vonandi hefur skilað sér í aukinni hrygningu. Það er afar ánægjulegt að segja frá því að nú hafa fleiri landeigendur á svæðinu gengið til samninga við okkur. Það er mikill samhugur á svæðinu um mikilvægi þess að vernda þá merkilegu laxastofna sem kallað hafa svæðið sitt heimili í áraraðir. Samvinna með hagsmunaðilum hefur gengið vel og eru nánast allir tilbúnir að leggja hönd á plóg til þess að vernda þessa viðkvæmu stofna. Okkur hlakkar til að sjá verkefnið skila árangri og minnum á að okkar dyr eru alltaf opnar ef fleiri landeigendur vilja semja um netaveiðirétt sinn.“
Mynd: Elvar Örn Friðriksson með flottan lax.