Fréttir

Flugukastsnámskeið að hefjast

Nú fer grilltíminn að byrja þegar sumarið er gengið í garð og enn einn vorboðinn, flugukastsnámskeiðin, boða komu sína. Þar geta veiðimenn bætt sig í færninni að koma flugunni á réttan stað og þannig stóraukið árangurinn í eltingaleik við lónbúann. Leiðsögumaðurinn og kastkennarinn Reynir Friðriksson býður nú eins og undanfarin ár uppá námskeið bæði á einhendur og tvíhendur og eru fyrstu námskeiðin á Selfossi 2. til 4. maí nk. Námskeiðin verða fyrir byrjendur og lengra komna og óhætt að segja að nú sé gott að dusta vetrarrykið af veiðigræjunum og byrja að koma sér í gott form fyrir sumarveiðitímann sem er rétt handan við hornið.

Í samtali við Reyni upplýsti hann að námskeiðin á Selfossi væru byrjun á röð námskeiða en mikil eftirspurn væri eftir þeim og vonaðist hann til að geta haldið þau á fleiri stöðum eins og Suðurnesjunum og Reykjavík. Bætti hann því við að veiðimenn og konur áttuðu sig á því hversu miklu máli það skipti að ná góðum tökum á flugukasttækninni, það kæmi strax fram í aflabrögðum.