Fréttir

Stefnir í þurrkasumar – sjaldan verið minni snjór

Mynd tekin um síðustu helgi, vatnsmagnið ekki mikið og snjórinn sést hvergi /Mynd María Gunnarsdóttir

„Ég er búinn að fara víða um land og sjaldan séð eins lítinn snjó eins og nú, sumstaðar er bara ekki neitt. Það verður að rigna mikið í sumar ef ekki á að fara illa,“ sagði veiðimaður sem hefur kíkt á stöðuna síðustu vikur og það hafa fleiri gert.

Annar viðmælandi okkar, göngugarpur mikill, oft á fjöllum, segir stöðuna stórundarlega. Sumstaðar sé hvergi snjó að sjá á láglendi, hafði nýlega gengið um Borgarfjörðinn án þess að sjá svo mikið sem snjóskafl.

Já verðurfarið hefur breyst mikið hin seinni árin og snjóalögin minnkað, það verður því að treysta á miklar rigningar yfir sumartímann og það gæti orðið erfitt. Allt getur auðvitað gerst – og það vita allir.

Stóri laxinn er á leiðinni upp Hvítá í Borgarfirði þessa dagana, en fyrsta laxveiðiáin sem opnar í sumar er Þjórsá – en hún er reyndar alltaf vatnsmikil. Auðvitað vona menn það besta en staðreyndin er að snjórinn er minni og minni með hverju ári.