Votlendi hefur mikið og margvíslegt gildi og hefur Umhverfisstofnun raðað því upp í þrjá meginflokka með vatnsfræðileg, næringarefnafæðileg og vistfæðileg gildi. Þannig geymir votlendi stærstan hluta kolefnisforða jarðarinnar. Votlendi er mikilvægt búsvæði plantna, fugla, fiska og smádýra, bæta vatnsbúskap jarðar og geta jafnað vatnsrennsli og þannig minnkað hættu б flóðum, sveiflum í vatnsrennsli og jarðvegsrofi.
Fyrir tveimur árum stóð Votlendissjóður fyrir málstofu í Hörpu um endurheimt og gagnsemi votlendis. Sigurður Már Einarsson, fiskifræðingur á sviði ferskvatnslífríkja hjá Hafrannsóknarstofnun, fjallaði þar um áhrif endurheimtar votlendis á vatnsbúskap veiðiáa. Það sem þar kom fram vakti mikla athygli hjá mér sem stangaveiðimanni.
Í erindi sínu benti Sigurður á að veruleg miðlun væri frá votlendi í árnar sem bætti lífsskilyrði í ánum. Þetta skipti sérstaklega máli á þurrkatímum, líkt og hér var sumarið 2019. Í miklum rigningum taka votlendissvæði til sín vatn en miðla vatni frá sér í þurrkatíð. Á þann hátt viðhalda þau jöfnu rennsli í lækjum og ám en jafnt rennsli straumvatna er mikilvægt fyrir lífverur sem þar búa, s.s. laxfiska. Þetta eru þættir sem eigendur og leigjendur veiðiréttar ættu að taka til skoðunar og velta fyrir sér hvort tækifæri séutil að efla vatnsgæði eigna sinna með endurheimt á vatnasvæðunum. Þannig mætti tempra öfgafullar sveiflur sem langir þurrkar eða miklar rigningar geta valdið — sveiflur sem valda fjölmörgum veiðilausum dögum á hverju sumri og geta þeir valdið vonbrigðum kaupenda.
Þá kom einnig fram í máli hans að endurheimt raskaðra vistkerfa, svo sem vatna sem hurfu vegna framræslu, taki tíma að vinna til baka. Hægt sé að hjálpa framvindunni með því að planta gróðri umhverfis endurheimtu svæðin og hraða þannig endurheimt vistkerfisins í kjölfar endurheimtar votlendisins.
Þannig ættu bæði leigutakar og leigusalar veiðiréttar að veita þessu sérstaka athygli því af ljóst má vera að endurheimt votlendis á svæðum þeirra mun án efa hafa hafa gildi fyrir vöruna þeirra, hvort sem sala vörunar er í formi heildsölu eða smásölu. Votlendissjóður er í virkri endurheimt með fjölda landeigenda um allt land í samvinnu við Landsgræðsluna sem mælir og metur jarðir fyrir sjóðinn til endurheimtar og miðlar þekkingu sinni við framkvæmd verkefna. Votlendissjóður greiðir framkvæmdina, leyfisöflun og allar mælingar framkvæmdarinnar en fær í stað aflaðar kolefniseiningar til átta ára. Um þetta er gerður staðlaður samningur milli landeigenda og sjóðsins. Landeigandinn fær í staðinn alla framkvæmdina greidda, hann gengur til góðs og bætir náttúrulegan fjölbreytileika í landi sínu og að loknum samningstímanum fær landeigandinn vottaðar og staðfestar kolefniseiningar sem unnar voru eftir ferlum IPCC (Milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna). Þær einingar er hægt að nota í kolefnisjöfnun rekstrar eða áframhaldandi sölu eininganna en þá selur landeigandinn einingarnar. Forsenda sölu slíkra eininga er að þær hafi verið mældar, metnar og mótaðar í ferlum sem þessum.
Mikilvægt er að halda því til haga að Votlendissjóðurinn er sjálfseignastofnun sem er fjármögnuð af einstaklingum, fyrirtækjum og sveitarfélögum með ríka samfélagsábyrgð. Hann hefur engar fyrirframgefnar heimildir til framkvæmda, hvorki í landi einkaaðila eða hins opinberra. Fyrir framkvæmdum þarf að liggja skýrt leyfi og ríkur vilji viðkomandi landeigenda og sveitarfélags. Votlendissjóður leitar að áhugasömum landeigendum til samstarfs um endurheimt og það er mikið fagnaðarefni hversu meðvitaðir og velviljaðir landeigendur um allt land eru til þess að vinna að endurheimt votlendis með sjóðnum. Þá er stuðningur almennings og einkarekinna fyrirtækja forsenda endurheimtarinnar og þeirri stöðvun á kolefnislosun sem henni fylgir. Hægt er að kynna sér gagnsemi endurheimtar votlendis á votlendi.is.
Einar Bárðarson