Fréttir

Við erum ánægðir með vatnsbúskapinn

Brynjar Þór

„Ég tel að við fáum gott veiðisumar,“ sagði Brynjar Þór Hreggviðsson, annar af sölustjórum Norðurár í Borgarfirði, þegar við spurðum um stöðuna fyrir sumarið núna þegar rétt mánuður er þar til áin opnar fyrir veiðimenn.

„Þótt það hafi snjóað seint í fjöllin þá slapp það til miðað við þá bændur sem hafa verið að skoða aðstæður á Holtavörðuheiðinni og maður hefur rætt við. Það vatn ætti að skila sér vel í árnar í júlí. Þannig að við erum ánægðir með vatnsbúskapinn. Varðandi veiðina, þá eru ótal margir þættir sem koma þar inní svo að góð veiði rætist. Ef við tölum um hvaða árgangar ættu að vera í Norðurá þetta árið þá eru það laxaárið 2015 með 2886 laxa, árið 2016 með 1342 laxa og árið 2017 með 1719 laxa. Þetta er alls ekki slæm staða sem þessir 5 – 7 ára árgangar ættu að vera skila inn í ár.  Það kannski gefur manni vísbendingar frekar um einhverja fylgni hvort það verði góð veiði eður ei. Mikið af smálaxahængum í ánum síðastliðið sumar var talin vísbending um tveggja ára lax. Ég veit að menn eru bjartsýnir á vestur- og norðvesturlandinu. Norðurá stóð sig vel í fyrra og má ekki gleyma því að hún var fjórða aflahæsta á landsins með hafbeitum meðtöldum, með um 1430 laxa. Við viljum sjá hana í 2000 löxum og ég er alveg bjartsýnn að við verðum nálægt þeirri tölu í ár. Ég er mjög spenntur fyrir komandi veiðisumri og er ánægður með stöðuna, “ sagði Brynjar ennfremur.

Mynd. Brynjar Þór Hreggviðsson