Tildra er fremur lítill fjörufugl, skrautlegur og kvikur. Í sumarfiðri er tildran rauðbrún að ofan, með svartar rákir á höfði og bringu og hvít að neðan. Höfuðið er hvítt og kollurinn rákóttur. Á veturna er hún öll grárri og litdaufari og það sama gildir um ungfugla, sem virðast hreistraðir á baki. Hvít bak- og vængbelti eru áberandi á flugi. Kynin eru svipuð, en karlfuglinn skærlitari á sumrin.
Tildran dregur nafn sitt á mörgum tungumálum af því háttalagi að velta við steinum og þangi í fjörunni í leit að æti. Hún er félagslynd, en er sjaldan í stærri hópum en frá nokkrum tugum fugla upp í fáein hundruð. Gefur frá sér hvellt og klingjandi skvaldur.
Fæða og fæðuhættir:
Veltir við steinum og þangi í fjörunni, tínir skordýr, eins og þangflugulirfur, smá krabbadýr, kræklinga og sæsnigla.
Fræðiheiti: Arenaria interpres
Mynd: María Gunnarsdóttir
Texti: Fuglavefurinn