„Já fyrsti laxinn er kominn á land í Langá á Mýrum þetta árið og það var Sigurjón Gunnlaugsson sem veiddi laxinn. Það hefur hann reyndar gert oft áður að veiða þann fyrsta,“ sagði Jógvan Hansen sem átti heiðurinn af fyrsta laxinum úr Langá fyrir ári síðan.
„Þetta var flott, fiskurinn 69 sentimetrar fallegasta hrygna, veiðisumarið er rétt að byrja og vonandi veit á gott sumar, eitthvað er gengið af laxi í ána,“ sagði Jógvan enn fremur.
Laxá á Ásum opnaði fyrir tveimur dögum og þar hafa veiðst tveir laxar. Smálaxinn er greinilega að mæta snemma þetta sumarið eftir að tveggja ára laxinn hefur hikstað í byrjun tímabilsins.
Mynd. Sigurjón Gunnlaugsson með fyrsta laxinn úr Langá á Mýrum á þessu veiðisumri en hann hefur oft náð fyrsta laxinn í ánni. Myndir Jógvan.