Duggöndin er meðalstór kafönd og svipar til skúfandar. Í fjarska virðist steggurinn dökkur að framan og aftan en ljós þess á milli. Höfuðið er svart og grængljáandi, bringan svört, síður og kviður hvít. Bak er gráyrjótt, vængbelti hvít, gumpur og undirstélþökur svört, stél grábrúnt. Í felubúningi er steggurinn grár á síðum og móskulegur. Kollan er dökkbrún á höfði, hálsi, bringu, baki og axlarfjöðrum, oft með gráum yrjum. Afturendinn er dökkgrár, síður gulbrúnflikróttar, kviður hvítur. Hún er með hvíta blesu við goggrót, á varptíma er einnig ljós blettur á höfuðhliðum. Bæði kyn eru með hvít vængbelti og ljósa undirvængi.
Duggönd hegðar sér líkt og skúfönd, verður best greind frá henni á stærð og hnöttóttara höfði, karlfugl á ljósu baki, kvenfugl á ljósari lit og stærri og ljósari flekkjum á höfði. Er ávallt félagslynd.
Fæða og fæðuhættir:
Dýraæta sem kafar til botns eftir smádýrum og lifir á svipaðri fæðu og skúfönd, botnkrabbar eru þó ofar á lista hennar. Lifir jafnframt nokkuð á grænþörungum og nykrum, sem og hornsílum.
Mynd: María Gunnarsdóttir
Fræðiheiti: Aythya marila
Fuglavefurinn.is