Fréttir

Meira nammi fyrir veiðimenn

Hið gríðarvinsæla veiðihlaðvarp Þrír á stöng hefur loks göngu sína á ný eftir sumar- og veiðifrí. Eins og oft vill verða í góðum hollum þá verða mannabreytingar og kemur maður í manns stað. Jón Stefán og Árni Kristinn taka sér kærkomna hvíld og inn kemur Benedikt Þorgeirsson sem er flestum stangveiðimönnum kunnugur og mun hann stýra þættinum í vetur ásamt Hafsteini. Benedikt hefur þegar heimsótt strákana í þáttinn ásamt því að gestastýra þætti svo hann ætti að koma sterkur inn. Fyrir þá sem ekki þekkja til kauða þá er Benedikt helst þekktur fyrir að vera silungsveiðimaður og afbragðs fluguhnýtari og er maðurinn á bak við flugur eins og Finnska Bobbann og Bloody Friskò. Samanlögð reynsla Hafsteins og Benedikts ætti að fleyta hlustendum í gegnum veturinn og vonandi veita fróðleik með aðstoð vanra manna og góða skemmtun.