Skúföndin er fremur lítil og nett önd og er algengasta kaföndin á láglendi. Hún er mjög dökk, steggurinn er með svart, blágljáandi, hnöttótt höfuð með lafandi hnakkaskúf. Síður eru hvítar, svo og kviður, undirvængir og vængbelti, fjaðurhamur annars svartur eða brúnsvartur. Í felubúningi er hann grár á síðum með stuttan skúf, að öðru leyti eins og í skrautbúningi. Á fyrsta vetri eru síður brúnflikróttar. Kollan er dökkbrún að ofan, með ljósflikróttar síður, hvítan kvið og vængbelti. Flestar hafa hvítan blett við goggrót og ljósan undirgumpur sem dökknar á sumrin. Á þeim vottar fyrir hnakkaskúfi. Ungfuglar eru dekkri en kvenfugl. Skúfönd svipar til duggandar en er grennri, með annað höfuðlag, styttri háls og dekkri búning.
Skúfönd er félagslynd á öllum árstímum. Hún flýgur hratt með hröðum vængjatökum, er djúpsynd og fimur kafari en þung til flugs og hleypur á vatni í flugtaki eins og aðrar kafendur.
Fæða og fæðuhættir:
Skúfönd er dýraæta sem kafar til botns eftir smádýrum, t.d. mýlirfum, krabbadýrum, vatnabobbum og ertuskeljum. Þörungar og hornsíli eru í litlum mæli á matseðli skúfandar.
Fræðiheiti: Aythya fuligula
Texti: Fuglavefurinn
Mynd: María Gunnarsdóttir