Himbrimi er stór, sterklegur og rennilegur vatnafugl, einn af einkennisfuglum íslenskra heiðavatna. Á sumrin er hann með gljásvart höfuð og háls, á hálsi er ljós kragi með svörtum langrákum og sama litamynstur á bringuhliðum. Hann er svartur að ofan, alsettur hvítum tíglum eða dílum sem eru mest áberandi á axlafjöðrum. Bringa og kviður eru hvít, vængir dökkir að ofan en hvítir að neðan. Á veturna er hann grábrúnn að ofan, með dekkri koll og afturháls, hvítur á vöngum, framhálsi og að neðan. Ungfugl er svipaður en ljósari fjaðrajaðrar mynda daufa tígla að ofan. Kynin eru eins.
Himbriminn flýgur með kraftmiklum vængjatökum. Á flugi er hálsinn niðursveigður og fæturnir skaga aftur fyrir stélið. Hann er fimur sundfugl, mikill kafari og fremur djúpsyndur, þungur til flugs og lendir á maganum en ber ekki fæturna fyrir sig eins og flestir fuglar. Brúsar (himbrimi og lómur) geta ekki gengið og koma ekki á land nema til að verpa og skríða þá á maganum til og frá hreiðrinu. Eru venjulega stakir, í pörum eða litlum hópum.
Fæða og fæðuhættir:
Fiskiæta, á ferskvatni er silungur aðalfæðan, litlir ungar fá hornsíli. Á sjó veiðir hann m.a. marhnút, ufsa, þorsk, skera og trjónukrabba.
Fræðiheiti: Gavia immer
Texti: Fuglavefurinn
Mynd: María Gunnarsdóttir