Veðurfarið hefur ekki verið uppá marga fiska á stórum hluta landsins síðustu vikurnar, skítakuldi og ekki hundi út sigandi. Á Bröttubrekku var eins stigs hiti í gærkvöldi og á Holtavörðuheiði við frostmark, júní að líða undir lok og það má hlýna verulega.
„Þetta er bara ógeð og fiskurinn tekur ekkert í þessu tíðarfari, það mætti heldur hækka í hitanum, sagði leiðsögumaður við eina veiðiána í morgun, þar sem lofthitinn var 4 gráður og rok í þokkabót.
„Við erum að leiðinni í bæinn,“ sagði Harpa Hlín Þórðardóttir eftir opnun Laxár í Dölum, þar sem veiddust tveir laxar. „Það hefur verið ískalt við veiðiskapinn,“ upplýsti Harpa og það eru orð að sönnu.
Já tíðarfarið er ekki uppá sitt besta en ótrúlegt hvað veiðist þrátt fyrir allt. Veiðimenn voru í Fögruhlíðarósi fyrir austan í gær kappklæddir en bleikjan var aðeins að gefa sig í kuldanum. Svona mætti lengi telja og rúmlega það en ljósi punkturinn er að spáð er hlýnandi á þriðjudaginn, þó fyrr hefði verið. Hér áður þurfti maður að fara á bak við stein til að beita svo fiskurinn hoppaði ekki á öngulinn. Nú fer maður bak við stein til flýja kuldann en það dugar skammt.
Mynd. Lax kominn á land í kulda og trekki.