„Farið var snemma af stað morguninn 12 ágúst í ágætis veðri á svæði eitt í leit að tveim simlum,“ sagði Sigurjón Bjarnason í samtali en hann var á hreindýraslóðum fyrir fáum dögum.
„Ég fór ásamt bróður mínum, við vorum báðir með dýr. Leitað var af hjörðinni í heilan dag og veður var farið að breytast til hins verra, þ.e. orðið hvasst og útlitið ekki gott um tíma. Við vorum ekki búnir að finna hjörðina og veður versnandi. En afburða leiðsögumaðurinn okkar, hann Sigurður Aðalsteinsson, er ekki að gera þetta í fyrsta sinn og loks fundum við hjörðina, en þetta var um 200 dýra hópur. Hjörðin var frekar óróleg og þrammaði áfram sem gerði okkur bræðrum erfitt um vik. Við ásamt leiðsögumanninum gengum um 15 km áður en við komumst loks í færi. Fjarlægðin var nokkur eða um 300 m og stíf norðan átt. Júlíus bróðir tók fyrsta skotið og smell hitti og í kjölfarið hleypti ég af skoti og eftir lágu tvö dýr. Ég var með Mauser m18 kaliber 6.5 creedmore og Júlíus með Bergara B14 sporter kaliber 6.5 creedmore. Með svona verkfærum er hægt að taka skot á þessu færi. Kýrin hans Júlla vó 50 kg. mín var heldur minni eða um 38 kg. Þetta er ein af þessum ferðum sem gleymast seint og fer rakleitt í minningarbankann,“ sagði Sigurjón að lokum.