Laxveiðiár

Laxá í Aðaldal

ÖLL SVÆÐIN Á SEX VÖKTUM
Breytt fyrirkomulag veiða í Laxá í Aðaldal

Vorið 2020 sagði Laxárfélagið upp samningum sínum um veiðar í Laxá í Aðaldal eftir að hafa verið með stóran hluta hennar á leigu í rétt tæp 80 ár. Þá var ljóst að fyrir veiðisumarið 2021 yrðu landeigendur við ána að finna nýjar leiðir til að bjóða stangveiðimönnum að njóta dýrðarinnar í Aðaldalnum þar sem stórlaxarnir eiga lögheimili.

Ákveðið var að sameina allt laxasvæðið, utan Árbótar og Jarlsstaða, fækka stöngum úr 17í 12 og bjóða fólki að veiða alla þekktustu staðina á þremur dögum. Menn þurfa þá ekki lengur að velja á milli þess að fara í Nes eða veiða neðsta hluta árinnar, heldur geta heimsótt alla frægustu staðina í einum túr, til dæmis Æðarfossa, Vitaðsgjafa, Mjósund, Presthyl, Höfðahyl, Hólmavaðsstíflu, Óseyri, Brúarsvæðið og Núpafossbrún.
Sportveiðiblaðið boðaði Hermóð Hilmarsson í Nesi og Jón Helga Björnsson á Laxamýri á stuttan fjarfund til að forvitnast nánar um fyrirkomulagið.
Það fer ekki á milli mála að þeir eru báðir afar spenntir fyrir breyttu fyrirkomulagi við veiðarnar. Hvor um sig hefur áratugalanga reynslu af stangveiði í Laxá en hvorugur hefur áður notið þeirra forréttinda að fá að veiða alla ána og þeir hlakka mikið til að fá að prófa það í sumar.
„Raunar hafa fæstir veiðimenn fengið að njóta þess,“ segir Hermóður. „Menn hafa annaðhvort verið upp frá hjá okkur eða þá niður í Vökuholti. Núna taka menn öll svæðin á sex vöktum. Þeir sem eru í veiðihúsinu í Nesi byrja þar í kring og halda síðan niður með ánni en hinir sem verða í Vökuholti við Laxamýri byrja þar og feta sig síðan upp eftir. Fækkun stanganna gerir það líka að verkum að það verða alltaf einhverjir frábærir veiðistaðir hvíldir á nánast öllum svæðum. Menn komast hreinlega ekki yfir að veiða heilt svæði með tveimur stöngum á einni sex tíma vakt.“

Færri stangir og meiri meðalveiði
Jón Helgi tekur undir þetta og segist sannfærður um að jafn margir laxar muni skila sér á land og áður, meðalveiðin á stöng verði einfaldlega meiri. „Álagið á ána minnkar og hægt verður að veiða betur á færri stangir. Hver stöng fær mjög mikið pláss og það verður eiginlega bara lúxusvandamál leiðsögumannsins að ákveða
hvar eigi að bera niður því að úr verður svo mörgum frábærum veiðistöðum að velja. Síðan verður samtengd veiðibók keyrð á spjaldtölvum í báðum húsum þannig að menn sjá alltaf eftir hverja vakt hvernig hefur gengið á hverju svæði fyrir sig.“
„Við verðum áfram með leiðsögumenn sem hafa langflestir alist upp á bökkum árinnar og þekkja hana eins og handarbakið á sér,“ segir Hermóður sem hefur verið leiðsögumaður við ána í um 30 ár. „Við höfum í gegnum tíðina orðið þess áskynja að veiðimennirnir kunna afar vel að meta þá stemningu sem myndast í samskiptum við heimafólk og hafa sumir þeirra sem koma ár eftir ár orðið eins og hluti af fjölskyldunni. Þetta er fyrst og fremst drifið áfram af fólkinu við ána. Við Árni Pétur leiðsegjum mikið og sá hópur sem við höfum í kringum okkur í Nesi og svo aðrir sem hafa séð um þetta niður frá. Það skilar sér í ánægju veiðimannanna að þeir finni fyrir fjölskylduandanum á staðnum og þannig viljum við hafa það áfram.“

Stöðugt vatn og stærri laxar
Ljóst er að fækkun stanga og opnun á flæði veiðimanna um nánast allt ársvæðið, setur Laxá í Aðaldal í algjöran sérflokk meðal íslenskra laxveiðiáa. Það verður rúmt um veiðimenn í þeirri miklu náttúrufegurð sem einkennir Aðaldalinn og hér er aldrei hörgull á vatni. Það felast nefnilega mikil hlunnindi í því mikla árvatni sem Laxá ber úr Mývatni og hér verður aldrei sama vatnsleysi og gjarnan plagar ár til að mynda á suðvesturhorni landsins á þurrkasumrum.
„Við byrjuðum að veiða og sleppa í Nesi sumarið 1994 að áeggjan bandarískra veiðimanna og öll árin frá 2006 hefur bæði verið veitt og sleppt í Nesi og á svæðum sem Laxárfélagið hafði. Þetta hefur ekki skilað þeirri fjölgun laxa sem við vonuðumst eftir en hins vegar sjáum við mun meira af mjög stórum löxum núna, fiskum sem eru 110–115 sm og 30 pund og þar yfir. Á tíunda áratugnum sáum við ekki mikið af fiski sem var langt yfir 100 sm. Þá var mjög eftirsótt að komast í 20 punda klúbbinn sem menn komust í þegar þeir lönduðu löxum sem voru yfir 100 sm en núna erum við komin með 30 punda gullmerki fyrir laxa sem eru 110 sm eða stærri og það hafa bæst við veiðimenn í þann hóp á nánast hverju sumri síðasta áratuginn,“ segir Hermóður.
Stórlaxastofninn í Laxá er víðfrægur um veröld alla. Sumarið 2016 var landað í Nesi fleiri en 100 löxum sem voru 100 sm eða meira. Þá voru meiri líkur á því að menn settu í 100 sm fisk á Nessvæðinu en að þeir lönduðu eins árs laxi úr sjó.

Heilt á litið yfir landið er algengast að hundraðkallarnir veiðist í Nesi og á lista yfir þau ársvæði á landsvísu sem skila stærstu löxunum er gamla svæði Laxárfélagsins við Laxamýri yfirleitt í öðru sæti. Þetta er því einstakur stórlaxastofn sem finnst ekki víða annars staðar. Mjög algengt er að menn setji í þessa stórlaxa fyrir neðan Æðarfossa snemmsumars en þá eru þeir svo harðir í horn að taka, nýkomnir úr sjó, að það er ekki algengt að menn nái þeim að landi.

Algjör munaðarvara í góðu ári
Það sem fer upp kemur aftur niður og það sem fer niður hlýtur fyrr eða síðar að koma aftur upp! Síðustu sumur hefur veiðin í Laxá verið heldur dræm og þess vegna eru bæði Hermóður og Jón Helgi sannfærðir um að uppsveiflan sé á næsta leiti.
„Ætli meðalveiðin síðasta áratuginn eða svo sé ekki um 800 laxar á sumri og frábært væri að ná því næsta sumar á 12 stangir í stað 17. Ef við hins vegar förum nær 1.200 löxum, sem gæti vel gerst, þá verður Laxá í Aðaldal með fækkun stanga og opnun á milli svæða algjör munaðarvara og engin spurning um að þá yrði slegist um að komast þar að sumarið 2022 og fengju trúlega færri en vildu,“ segir Hermóður og bætir við að niðursveiflur í veiðinni hafi sjaldnast varað lengur en í þrjú ár en að nú séu þau orðin fjögur og því einboðið að uppsveifla sé handan við hornið. Jón Helgi er sama sinnis og segirað menn séu fullir bjartsýni með þetta nýja fyrirkomulag fyrir næsta sumar. „Salan hefur gengið vel. Fyrri hluti sumars er mjög vel seldur en aðeins óvíst hvað verður um útlendingana vegna kófsins og því gæti eitthvað losnað af leyfum. Bretar virðast til dæmis enn halda aðeins að sér höndum en miðað við fréttir af bólusetningum í Bretlandi gæti ræst úr þessu hjá þeim. Það er aðeins meira óselt í ágúst og það finnst mér í raun skrýtið því að ágúst er mjög spennandi mánuður, ekki síst þegar öll svæðin eru
veidd því að á þeim tíma sumars er kominn lax um alla á,“ segir Jón Helgi.

Eftir að Laxárfélagið sagði sig frá samningnum um Laxá verður sú breyting á bókunum á neðra svæðinu að menn geta átt sitt fasta holl og mætt ár eftir ár sömu dagana en eru ekki skikkaðir til að greiða sinn hlut og taka miseftirsótta daga hvort sem það hentar þeim betur eða verr. Til að skapa enn meiri velvild og efla tengsl veiðimanna við heimafólkið í Aðaldalnum verður einnig til þess litið að þeir sem halda tryggð við ána eigi alltaf forgang áður en leyfi eru boðin öðrum.
Að lokum má til gamans geta þess að nú verða gömlu merkin, sem menn fengu fyrir að komast í 20 og 30 punda klúbbinn, ekki látin duga ein og sér lengur, heldur hefur frést að Gilbert úrsmiður í Reykjavík sé að hanna sérstök gullúr en þau geta veiðimenn sem komast í 30 punda klúbbnum eignast kjósi þeir svo.