Svartþröstur er svipaður gráþresti að stærð, og að lit ekki ósvipaður stara. Þekkist best frá stara á lengra stéli, jöfnum, svörtum lit án díla (karlfugl) og lengra stéli, auk þess á hátterninu, sem svipar til hegðunar annarra þrasta. Fullorðinn karlfugl er alsvartur, goggur og augnhringir skærgulir. Ungur karlfugl (á fyrsta vetri) er með dökkan gogg sem lýsist þegar líður á veturinn. Kerlan er dökkmóbrún að ofan, aðeins ljósrákóttari að neðan og með gráa kverk. 

Er venjulega felugjarn, nema syngjandi karlfugl á vorin, sem hreykir sér í trjátoppum. Svartþrestir sjást stakir eða í smáhópum.

Fæða og fæðuhættir: 
Etur bæði úr dýra- og jurtaríkinu, leitar að skordýrum, köngulóm og ormum á jörðu niðri, tekur einnig ber í runnum og trjám. Á veturna sækja þeir í garða þar sem epli, aðrir ávextir og feitmeti er gefið.


Mynd: María Gunnarsdóttir
Fræðiheiti: Turdus merula
Fuglavefurinn.is