,,Við erum búinn að eiga bústað við vatnið í mörg ár og við höfum aldrei séð urriðann svona illa haldinn, hann er eins og niðurgöngulax, virðist hafa lítið æti, “sagði veiðimaður og sumarbústaðaeigendi við vatnið, sem veiðir mikið í vatninu og hefur fengið þá marga væna i gegnum tíðina.
,,Við höfum fengið innan við tíu fiska núna síðan veiðin byrjaði á þessu sumri og flestir eru bara slápar, einn var sæmilegur. Murtan hrundi í vatninu og það sama er vonandi ekki að gerast með urriðann. En þetta eru klár hættumerki,“ sagði veiðimaðurinn ennfremur.
Murtan er mjög smávaxið afbrigði bleikju og uppistaðan í fæðu urriðans í Þingvallvatni en þar er að finna stórvaxnasta urriða í heimi segir í bókinni Urriðadansi eftir Dr.Össur Skarphéðinsson. Gnótt murtu sem urriðinn lá í frá vori og langt frameftir hausti var helsta ástæðan fyrir því hversu stórvaxinn urriðinn varð í Þingvallavatni. Veiðibændur veiddu sum árin yfir 70 tonn af murtu, sem ORA keypti. Niðursoðin murta var lengi eftirsótt gómsæti.
Á síðustu árum hefur orðið hrun í murtustofninum sem speglast bæði í minnkandi meðalstærð og samhliða hefur hlutfall kynþroska hrygna hríðfallið í tilraunaveiðum vísindamanna. Hlýnun vatnsins í kjölfar loftslagsbreytinga í heiminum eru taldar líklegasta ástæðan fyrir hruni murtunnar og krabbadýr sem eru helsta fæða hennar hafa rýrnað mjög á síðustu árum. Margir vísindamenn rekja þetta til þess að Þingvallavatn hefur á síðustu árum hlýnað um allt að tvær gráður flesta mánuði nema þrjá helstu vetrarmánuðina, og er komið vel yfir kjörhitastig bleikju.
Í bók Össurar er einmitt tekið dæmi af vatni í Írlandi sem hafði mergð smábleikju, svipaðri Þingvallamurtunni, og var frægt fyrir stórurriða. Þegar murtan hvarf úr írska vatninu hrundi stórurriðinn, og hvarf algerlega að lokum.
,,Mér fannst fiskurinn mjór og ílla haldinn í vatninu um daginn, ekki séð hann svona áður hérna,“ sagði veiðimaður sem var við veiðar í Þingvallavatni. Margir fleiri veiimenn hafa tekið undir þetta og hafa miklar áhyggjur af stöðu urriðans í Þingvallavatni.