„Já þetta var sá eini sem veiddist í dag en hann var hundrað sentimetrar og ég kominn í þann flokk,“ sagði Stefán Sigurðsson við Laxá í Dölum í kvöld en laxinn sem Stefán veiddi í Kristnapolli var sá eini sem veiddist á þessum opnunardegi, en hann var vænn. Það var með ólikindum að Stefán skyldi ekki veiða 20 punda lax áður miðað við hvað maðurinn er fiskinn.
„Þetta var bara flott, það var kalt í dag en rólegt og það eru nokkrir laxar sem við vissum um en enginn kom á land eftir hádegi,“ sagði Stefán enn fremur.
Það er nokkuð síðan fyrst sást lax í Laxá í Dölum enda Kristnipollur um miðja á og það veiddist leginn lax í Laxá í Kjós fyrir nokkrum dögum. Laxinn virðist vera farinn að mæta fyrr í árnar en venjan var hér áður fyrr.
Mynd. Stefán Sigurðsson með 20 punda laxinn úr Kristnapolli í Laxá í Dölum, þann fyrsta úr ánni. Mynd Harpa.