Veiðimenn geta huggað sig við að þótt ekki sé hægt að renna fyrir fiski þá er hægt að stytta biðina með því að hlusta á veiðitengd hlaðvörp. Nú hefur hlaðvarpið Þrír á stöng hafið göngu sína á ný en það hefur verið eitt vinsælasta veiðihlaðvarp landsins undanfarin misseri. Umsjónarmenn eru Hafsteinn Már Sigurðsson, Árni Kristinn Skúlason og Jón Stefán Hannesson.
„Já, við erum sko sannarlega byrjaðir aftur eftir góða pásu og erum mjög spenntir fyrir vetrinum,“ segir Hafsteinn og bætir við: „Í vetur ætlum við að hafa þetta hefðbundið að því leyti að talað verður við veiðifólk sem hefur frá mörgu að segja og er sérfrótt um ákveðin veiðisvæði, tækni eða annað sem tengist veiði. Til dæmis erum við búnir að ræða Þingvallavatn ítarlega í fyrstu þáttum vetrarins með algjörum sérfræðingum, þeim Jakobi Sindra Þórssyni og líffræðingnum Finni Ingimarssyni sem rannsakað hefur murtuna í þaula. Því miður eru niðurstöðurnar ekki mjög jákvæðar.
Bæði styttra og lengri komnir veiðimenn ættu að geta lært nýja hluti í sportinu í gegnum þættina. Eitthvað verður líka um hnýtingar hjá okkur og við lofum ýmsum skemmtilegum uppákomum í vetur til að stytta biðina fram á vor“ segir Hafsteinn og bætir við að lokum: „Aveijó, veijó.“