Fréttir

Frábær veiði í Hólaá

Jonalyn með veiði úr Hólaá en vel hefur veiðst þar sem af er veiðitímanum /Mynd Atli

„Við settum í þrjátíu fiska og tókum tíu en slepptum hinum, mikið af fiski þarna núna og allt urriði,” sagði Atli Valur Arason sem hefur verið duglegur að veiða með konunni, meðal annars í Hólaánni sem rennur úr Laugarvatni. Áin hefur verið að gefa flotta veiði og þá mest urriða síðan veiðin hófst í vor.

En vel hefur veiðst þarna og veiðimenn sem voru um daginn fengu 40 fiska og margir hafa veitt vel það sem af er veiðitímanum. Nær eingöngu er urriði að veiðast þarna þessa dagana en bleikjan fæst líka þegar líður á sumarið.

„Þetta eru mest tveggja til þriggja punda fiskar  sem veiðast og svo er það Þingvallavatn á fimmtudaginn. Þetta er allt að komast á fleygiferð í veiðinni,” sagði Atli Valur ennfremur.

„Við vorum í Apavatni í vikunni og fengum á þremur tímum um 30 fiska á tvær stangir,” sagði Árni Kristinn Skúlason og bætti við; „svakalegt fútt veiddi 18 fiska á sömu fluguna, gaman af því,“ sagði Árni Kristinn ennfremur.