RjúpanSkotveiði

Rjúpnaskyttur á veiðislóðum á Holtavörðuheiðinni

Það voru margir á Holtavörðuheiði í dag en veðrið var frábært á þessum fyrsta degi. Þeir Ingimar og Ingi voru klárir í veiðina /Mynd María Gunnarsdóttir

Fyrsti dagurinn á rjúpu var í dag og miðað við það að aðeins megi veiða í einn dag voru veiðimenn víða á veiðislóðum.  Á Holtavörðuheiðinni voru líklega á milli 35 og 40 veiðimenn í blíðu og fjögurra stiga hita.

Þrjár rjúpur sem skotnar voru í Öxafirði í dag en þar fengust fimm rjúpur /Mynd Ellert

Við hittum veiðimenn sem voru að byrja veiðina um hádegi á Holtavörðuheiði og þeir voru bjartsýnir, alla vega væri þetta góður göngutúr í einstöku veðri, veiðin yrði bónus í blíðunni.

„Við vorum í Öxarfirði og fengum nokkrar rjúpur,“ sagði Ellert Aðalsteinsson þegar við heyrðum í honum fyrir austan og hann bætti við; „sáum slatta af fugli seinni partinn en rjúpurnar voru mjög ofarlega, leiðinlegt veður, rigning og þoka, rjúpan var brjáluð úr styggð. Fyrstu tímarnir fóru í að ganga niður í kjarrinu, þekktum ekki landið og mikil þoka og rigning. Hækkuðum okkur svo seinni partinn og náðum þessum fuglum með miklu harðfylgi. Við vorum fjórir og fengum fimm rjúpur samanlagt,“ sagði Ellert ennfremur.