„Já við vorum að koma úr Leirvogsá og það var skemmtilegt, fékk tvo fiska þar og félagi minn hann Magnús missti einn,“ sagði Björn Hlynur Pétursson þegar við spurðum um veiðina, en hann hefur veitt uppá dag síðan veiðin hófst fyrir alvöru,
„Það er fátt betra en að renna fyrir fisk,“ bætti Björn við um veiðiskapinn síðustu daga.
Korpa er einnig byrjuð að gefa fiska og Leirá byrjaði frábærlega og það sama má segja um Litluá í Kelduhverfi. Haukur Jónsson veiðimaður var þar á veiðislóðum og hollið veiddi 78 fiska á einum degi, langmest staðbundinn urriði en nokkrir sjóbirtingar og bleikjur. Stærð fiskanna allt frá 45 sm en mest kringum 60 sm og rétt yfir, sá stærsti 81 sm. Flestir voru fiskarnir vel haldnir en slápar inn á milli. Veðrið var gott þennan fyrsta dag sem mátti veiða.