EldislaxarFréttir

Ég er sorgmæddur – segir Jón Víðir Hauksson

Það hefur verið mikið verk að vinna í Staðaránni. Myndir/Jón Víðir

„Myndirnar eru frá Staðará í Steingrímsfirði en þar þurfti að draga ána um síðustu helgi vegna eldislaxa,“ sagði Jón Víðir Hauksson veiðimaður og bætti; „veiðiá sem landeigendur nýta að mestu sjálfir og nostra við að rækta og hlúa að villta laxastofninum, sem þar lifir.  Nú er staðan þessi; landeigendur þurftu að leggja í mikla vinnu við að uppræta strokulaxa úr sjókvíaeldi í Patreksfirði í þessari viðkvæmu á. Þetta er nánast óvinnandi verkefni í þröngum gljúfrum og fossum.

Líklegt er að 20% hrygningafiska í ánni eru eldislaxar og búið að ná um 15% þeirra. Ég er sorgmæddur og fullur vonleysis gegn þessari nýslu á náttúruna! Norsku peningaöflin keyra yfir okkur með dyggri aðstoð Alþingis og þeirra sem horfa til skjótfengins gróða á kostnað Íslenskrar náttúru,“ segir Jón Víðir og allt annað en ánægður með stöðu mála, eins og miklu miklu fleiri.