„Ég er að fara í silungsveiði um helgina með krakkana og þarf því maðka í beituna, en það er vonlaust að fá maðk núna, sama hvert maður leitar,“ sagði veiðimaður sem við heyrðum frá í dag og hann hafði leitað í nokkra daga. „Það er kannski ekki maðkaveður hérna sunnanlands þessa daga og verðið á þeim sem koma upp úr moldinni er mjög hátt. Ég verð að láta börnin veiða á spúna og flugur, þau kunna það reyndar alveg,“ sagði veiðimaðurinn knái.
Já, það er erfitt að fá maðka um stundir en verð á stykkið eru 200 til 250 krónur fyrir þá fáu sem eru í boði. Maður sér á maðkasíðunum að margir leita grimmt af þeim slímuga og fáir fá. Flestir vilja þetta 100, 200 og jafnvel 300 stk á meðan lítið sem ekkert er í boði.