Fréttir

Það var fullt af laxi að ganga

„Þetta var meiriháttar veiðitúr í Elliðaárnar og mikið af fiski að ganga í árnar,” sagði Össur Skarphéðinsson sem var við veiðar í Elliðaánum í fyrradag og veiddi vel. En Elliðaárnar hafa gefið á milli 260 og 270 laxa sem er flott veiði, „laxinn tók bara svartan franses og við fengum mest á Hrauninu, þetta var bara mokveiði. Þá sáum við mikið af fiski í ánni víða og það var fiskur að ganga. Elliðaárnar eru skemmtilegar og gaman að veiða þarna,“ sagði Össur ennfremur um veiðitúrinn sem gaf honum nokkra laxa.

Veiðin hefur verið góð í Elliðaánum það sem af er og barnadagur var fyrir fáum dögum í ánni og veiddust um 20 laxar. Lax er að ganga á hverju flóði síðustu daga.

Mynd. Össur Skarphéðinsson með einn af löxunum sem hann veiddi og sleppti.