FréttirOpnun

Pálmi Gunnarsson opnar í Hvítá Skálholts

Vorveiðin í Hvítá í landi Skálholts var leyfð í fyrsta sinn í fyrra frá 1. apríl. Mælst er til þess að menn sleppi alfarið niðurgöngufiski á vorveiðinni en það er ekki skylda að sleppa í Hvítá á aðal veiðitímanum sem hefst 24. júní. Veiðimenn hafa haft gaman að því að byggja upp veiðireynsluna með Skálholti og verður spennandi að sjá hvernig gengur í sumar. Sá kunni veiðimaður, Pálmi Gunnarsson, tónlistarmaður í Laugarási, mun opna laxveiðitímabilið á Jónsmessu að þessu sinni með gestum sínum og með leiðsögn Kristjáns Björnsonar, biskups.

Hvítá torfholt

Hér í Hvítá Skálholts er að koma inn vitneskja um fleiri veiðistaði og svo er einnig legið í gömlum skrám og fornleyfarannsóknum á veiði á vegum þessa sögufræga biskupsseturs fyrr á öldum. Vitað er um forna veiðistöð í Torfholti og einnig er talsvert um tóftir í Stekkatúnsholti. Neðan við Stekkatún var lengi veiðikofi og þar eru einnig heitar vilprur í ánni sem skapa veiðistaðinn Sléttur. Jeppafær akvegur er nánast með allri Hvítá þótt fara verði varlega á vorin. Mislangt er út á eyrarnar frá þessum slóða en hægt er að aka niður alla Skálholtstungu meðfram Hvítá og suður á Músanes. Skálholt á ekki sjálf ármótin við Brúará né Hjarðarneshólma sem þar er allra syðst en allt að þessum hólma sem stundum er umflotinn vatni úr ánum. Lygnan í Hvítá ofan við ármótin getur verið einstök þegar Brúará nánast rennur uppí Hvítá á þessum stað. Þar hefur fengist sjóbirtingur. Breytilegt er hvort laxagangan er nær bökkum Skálholts í aðal straumi árinnar eða nær eystri bakka hennar við Þengilseyri en þar rétt ofan við Hvítárbrú eru ármótin við Stóru Laxá í landi Iðu.

Brúará rennur um 9 km í landi Skálholts þar til hún fellur í Hvítá við Hjarðarneshólma. Mesta veiðireynslan í Brúará hefur verið á kaflanum sem einkennist af hverasvæðinu í ánni og á bökkum hennar á móts við Reykjanesið. Eru þar Hveraskott ofan við Þorlákshver, Hverhólmar neðan við hann og svo nokkru neðar þar sem affallið er af Litlahver. Urriðinn er fjörugastur þar en það getur verið mikil list að ná í stærri bleikjuna því hún er almennt séð í miklu æti og ekki ginnkeypt fyrir hverju sem er. Þær stærstu eru kallaðar Kusur. Góður jeppaslóði er að Þorlákshver og fer vegaslóðinn batnandi með hverju ári lengra niður eftir ánni. Brúará er köld nema á hverasvæðinu þar sem blandan leiðir af sér kjöraðstæður fyrir silungsveiði. Það er að hluta staðbundinn stofn. Seint á sumrin gengur lax uppí Brúará. Öll þessi veiði er seld á veida.is og er vorveiðin í Hvítá flokkuð þar undir silungsveiði.