Hrossagaukur (einnig kallaður mýrispýta eða mýrisnípa) er algengur meðalstór vaðfugl sem fer gjarnan huldu höfði. Hann er í brúnum og ryðrauðum felulitum, nema kviðurinn er hvítur. Mógular rákir á höfði og eftir endilöngu baki eru einkennandi, auk dökkra koll- og augnráka. Jaðrar stélfjaðranna eru hvítir. Kynin eru eins. 

Fluglagið er rykkjótt og sérkennilegt. Á vorin flýgur hrossagaukur hringflug yfir óðali sínu og hneggjar án afláts. Erfitt er að koma auga á hann á jörðu niðri, því hann er var um sig og felugjarn. Þegar hann er fældur flýgur hann snögglega upp með skrækjum og hverfur á braut með hröðum vængjatökum eða steypir sér snöggt til jarðar. Fremur ófélagslyndur fugl.

Fæða og fæðuhættir: 
Potar löngum goggnum í votan og mjúkan jarðveg og tínir upp orma, tekur einnig aðra hryggleysingja eins og lirfur, bjöllur og áttfætlur.

Fræðiheiti: Gallinago gallinago
Fuglavefurinn

Mynd: María Gunnarsdóttir