Stofnfundur Fluguveiðifélags Suðurnesja var haldinn síðastliðið mánudagskvöld að viðstöddum fimmtíu stofnfélögum af Suðurnesjum en undirbúningsnefnd hefur verið að störfum síðastliðnar vikur þar sem húskarlinn Guðni Grétarsson hefur leitt þá vinnu. Félagið hefur fengið vinnuheitið Fluguveiðifélag Suðurnesja þar til framtíðarnafn félagsins verður endanlega ákveðið á aðalfundi félagsins.
„Markmið félagsins er að skapa vettvang fyrir veiðiáhugafólk á Suðurnesjum og halda úti félagsstarfssemi tengdri stangveiði. Einnig er stefnt að því að útvega félagsmönnum veiðileyfi á betri kjörum en ella, en megin áhersla verður á fluguveiði, virðingu fyrir náttúru og dýrum, sem og að halda úti öflugu félags og fræðslustarfi sem eflir hróður Suðurnesjamanna innan stangveiðinnar á Íslandi,“ segir í tilkynningu frá nýstofnuðu félagi.
Kosið var til formanns og stjórnar, en formaður var kjörinn Styrmir Fjeldsted, en með honum í stjórn sitja Alfreð Elíasson, Aníta Carter, Brynjar Þór Guðnason, Bjarki Már Viðarsson, Marel Ragnarsson og Trausti Arngrímsson.
Um miðjan apríl verður boðið til aðalfundar þar sem lög félagsins verða samþykkt og einnig er stefnt að hefja starfið formlega í apríl með fræðslu- eða hnýtingarkvöldum.