Skotíþróttir eru meðal fjölmennustu íþrótta sem stundaðar eru á Íslandi með yfir 6000 skráða iðkendur frá 17 héraðssamböndum. Íþróttin er af flestum stunduð sem frístunda sport en einnig sem keppnisgrein á öllum afreksstigum. Ísland hefur átt keppendur í skotíþróttum á öllum stærstu íþróttaviðburðum sem haldnir eru undir merkjum Alþjóðaólympíusambandsins (IOC) og ÍSÍ, svo sem Ólympíuleikum og Evrópuleikum. Einnig taka íslenskir keppendur reglulega þátt á Heimsmeistaramótum, Evrópumeistaramótum og Norðurlandamótum auk fjölda annarra móta ár hvert.
Skotfélag Reykjavíkur er fjölmennasta íþróttafélagið innan vébanda Skotíþróttasambandsins með yfir 1,800 iðkendur og árlega sækja yfir 5,000 manns félagið heim til æfinga og keppni. Aðstaða félagsins er einnig mikilvæg fyrir námskeiðahald af ýmsum toga, svo sem fyrir skotvopnapróf, veiðipróf og fleira. Aðgangur að góðu skotíþróttasvæði er öllum bæjarfélögum mikilvægur, ekki einungis til íþróttaiðkunar heldur einnig svo mögulegt sé að kenna meðferð á byssum í öruggu umhverfi undir leiðsögn fagfólks með réttindi til kennslu.
Nú hefur aðstaða Skotfélags Reykjavíkur á Álfsnesi verið lokuð frá 27.september 2021 og opnun þess ekki í sjónmáli. Á sama tíma fer í hönd keppnistímabil útigreina skotíþrótta og námskeiðshald fyrir Umhverfisstofnun og Ríkislögreglustjóra.
Þing Skotíþróttasambands Íslands haldið í Íþróttamiðstöðinni í Laugardal þann 2. apríl 2022 sendir frá sér eftirfarandi ályktun:
Vegna aðstöðuskorts sem stafar af lokun æfinga- og keppnissvæðis Skotfélags Reykjavíkur á Álfsnesi og óvissu um framtíð þess svæðis skorar 44. þing Skotíþróttasambands Íslands 2022 á borgaryfirvöld að tryggja fullnægjandi æfinga- og keppnisaðstöðu fyrir iðkun skotíþrótta á höfuðborgarsvæðinu.
F.h.STÍ, Halldór Axelsson formaður