FréttirVeiðileyfi

Fish Partner komin með Geirlandsá

Það er fallegt við Geirlandsá sem Fish Partner hafa leigt

Það hefur legið í loftinu í allt haust að Fish Partner sé að taka Geirlandsá á leigu en þá eru þeir komnir með flestar sjóbirtingsár á svæðinu; Tungufljót, Vatnamótin, Fossálana og núna Geirlandsá. Flugufréttir birtu í gær fréttir þess efnis að leigusamningar hafi tekist. 

Stangaveiðifélag Keflavíkur hefur haft Geirlandsá á leigu til fjölda ára og Fossálana einnig, en Fish Partner hafa nú náð þeim báðum undir sinn væng. Þeir stefna að því að byggja ýmislegt upp fyrir austan eins og veiðihús fyrir öll svæðin, þannig að mjög líklega verða aðeins vel efnaðir erlendir veiðimenn að veiðum þarna næstu árin ásamt leiðsögumönnum þeirra. Öllum fiski verður sleppt á þessum veiðisvæðum sem Fish Partner hafa nú á leigu og áformin hjá þeim eru stórtæk og verður tilkynnt með tíð og tíma, segja okkar heimildir.

Stangveiðifélag Keflavíkur á ekki eftir mörg veiðisvæði fyrir sína félagsmenn, aðeins Hrolleifsdalsá í nágrenni Hofsóss og Vestur-Hópsvatn í Húnavatnssýlum.