Fréttir

Flottir fiskar veiddust á sjóstöng

„Frændi minn og vinur eiga strandveiðibát. Hann hefur nokkrum sinnum málgað það að bjóða mér á sjóstöng,“ sagði Gylfi Jón Gylfason veiðimaður og bætti við; „sá ljóður var ætíð á því boði að báturinn var gerður út frá Kópaskeri og því óhægt um vik að skreppa úr Suðurnesjabæ. Báturinn er núna gerður út frá Sandgerði og ég beið því spenntur eftir endurnýjuðu boði. Það kom loksins og ég mætti spenntur niður á bryggju, þar voru mættir góðir veiðifélagar. Ekki þurfti að stíma langt, eftir eiginlega enga stund lóðaði duglega. Við vorum klárir með stangirnar og renndum. Ekkert vildi fiskurinn úr þessari lóðningu, því var kippt og við færðum okkur einhverja hundruði metra. Aftur lóðaði og aftur var rennt fyrir fisk. Við urðum varir við fisk alveg um leið. Ég byrjaði á að landa minnstu ýsu sem ég hef á æfinni séð og hef ég þó unnið í frystihúsi. Svo byrjaði ævintýrið: Það var á í næstum því hverju einasta rennsli og við lentum oft í því að vera allir þrír með fisk á í einu. Það var fullur starfi fyrir þann fjórða að vera með ífæru og rífa þorskinn um borð því að míkróýsunni frátaldri veittum við bara þorsk.  Og þvílíkur þorskur! Margir voru á bilinu 10 til 15 kg, enginn smáfiskur og uppístaðan í aflanum var rígvænn fiskur á bilinu 5 til 10 kg. Ég, og raunar við allir, misstum tímaskynið í atinu. Sennilega höfum við að frátöldu inn- og útstími verið að veiðum í uþb klukkustund. Á þessari klukkustund held ég að aflinn hafi verið á þessar þrjár stangir um það bil 200 kíló.  Allir slógum við persónuleg met í stærð á fiski. Við hættum þegar skynsemin, nægjusemi og aðgerðakvíði í bland sögðu okkur að mál væri að hætta. Það lóðaði hressilega þegar við hættum en það var komið nóg. Ógleymanlegur veiðitúr með góðum félögum kominn í safnið,“ sagði Gylfi Jón enn fremur.